149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:44]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Mig langar að fara aðeins yfir umsögn Eyjólfs Ármannssonar lögfræðings og fara yfir fjórða kafla á hundavaði og grípa aðeins ofan í hann hér og þar. Þetta er fjórði kafli umsagnarinnar: Málsmeðferð fyrir sameiginlegu EES-nefndinni eftir höfnun Íslands á þriðja orkupakkanum.

Lögfræðingurinn setur fram það sem gerist ef Ísland hafnar þriðja orkupakkanum. Hér segir, með leyfi forseta:

„Með vísan til ofangreinds“ — þ.e. titilsins „á Ísland að tilkynna sameiginlegu EES-nefndinni að ákvörðun nefndarinnar nr. 93/2017 hafi ekki hlotið samþykki á Alþingi Íslendinga. Ísland nýti sér því hinn stjórnskipulega fyrirvara og vísi málinu aftur til nefndarinnar.

Er þetta í samræmi við málsmeðferð samkvæmt 2. mgr. 103. gr. EES-samningsins og 102. gr. samningsins.“

Þetta er þessi fyrirvari eða þetta sem við erum búin að vera að halda hér fram lengi að hægt sé að gera en menn hafa ekki treyst sér til að gera.

Það segir á bls. 7, með leyfi hæstv. forseta:

„Mjög ríkar kröfur eru því á sameiginlegu EES-nefndinni að gera sitt ýtrasta að til að finna lausn sem aðilar geta sætt sig við og er skylda á nefndinni að halda áfram að leitast við að koma á samkomulagi um lausn svo draga megi frestunina til baka hið fyrsta.

Augljóst er að ofangreind málsmeðferð jafngildir ekki uppsögn EES-samningsins. Sérstakt ákvæði um uppsögn er í 127. gr. samningsins þar sem segir, að sérhver samningsaðili geti sagt upp aðild sinni að samningnum að því tilskildu að hann veiti öðrum samningsaðilum að minnsta kosti tólf mánaða fyrirvara með skriflegum hætti. Jafnskjótt og fyrirhuguð uppsögn hafi verið tilkynnt skuli hinir samningsaðilarnir boða til ráðstefnu stjórnarerindreka til þess að meta hvaða breytingar sé nauðsynlegt að gera á samningnum. Hafni Alþingi fyrirliggjandi þingsályktunartillögu og þar með staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur það ekki í sér uppsögn á EES-samningnum. Heimvísun til sameiginlegu EES-nefndarinnar er heldur ekki hægt að túlka sem uppsögn.

Sé það skoðun Alþingis að ofangreind málsmeðferð samkvæmt 102. og 103. gr. EES-samningsins sé ekki raunhæf málsmeðferð til að finna lausn sem aðildarríki geta sætt sig við þegar þau vísa máli aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar og þegar upp koma vandamál á sviðum sem falla undir valdsvið sitt og að slíkt jafngildi broti á samningnum eða uppsögn hans, er Alþingi að viðurkenna að hinn stjórnskipulegi fyrirvari hafi ekki þýðingu og að löggjafarvald hvað varðar innleiðingu ESB-gerða í landsrétt liggi í raun hjá sameiginlegu EES-nefndinni en ekki hjá Alþingi Íslendinga.“

Hann lýkur umfjöllun sinni á eftirfarandi orðum, þessi ágæti lögfræðingur, með leyfi forseta:

„Alþingi ber að rökstyðja og krefja utanríkisráðherra um rökstuðning fyrir heimild til að skuldbinda Ísland að þjóðarétti að innleiða í landsrétt reglur, hér ESB-gerðir, sem hafa ekki þýðingu eða gildi fyrir Ísland. Það að setja í lög reglur sem ekki hafa þýðingu eða gildi fyrir samfélagið dregur úr virðingu fyrir lögum og reglum innan þess, og getur grafið undan þeim. Innan þjóðaréttar er þetta áhugavert álitaefni sem ætti að knýja á um ítarlegra skoðun ætli Ísland að fara þessa leið.

Líti Alþingi Íslendinga og ríkisstjórnin svo á að Ísland verði að samþykkja fyrirliggjandi þingsályktunartillögu vegna stjórnmálalegs þrýstings frá ESB, stærri ríkjum ESB eða Noregi eða að Ísland hafi þegar gengist undir pólitískt samkomulag um að gera slíkt ber Alþingi að upplýsa almenning um það. Lýðræðislegir stjórnarhættir og gagnsæi krefjast þess. Grundvallaratriði er að þjóðin fái ætíð upplýsingar um stöðu landsins í EES-samstarfinu.“

Svo mörg voru þau orð, herra forseti. Ég sé að tími minn er að renna út en mér þótti þetta mjög fróðleg lesning um (Forseti hringir.) hvað gerist ef Íslendingar hafna orkupakkanum eins og hann liggur nú fyrir.