149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gera okkur og þeim sem heima sitja grein fyrir þessu. Vegna þess að það er bara mjög nauðsynlegt að sýna gögnin sem eru til staðar og leiðirnar sem eru færar og á að fara.

Ég er hér með 102. gr. í EES-samningnum. Þar kemur skýrt fram, með leyfi forseta, að sameiginlega EES-nefndin, eins og hv. þingmaður nefndi, skuli „gera sitt ýtrasta til að finna lausn sem aðilar geta sætt sig við.“ Einfaldara getur það ekki verið, herra forseti.

Þess vegna segi ég: Það er algjörlega óskiljanlegt hvers vegna ríkisstjórnin vill ekki fara þá leið sem er fær. Sú leið er að finna lausnina og þar á nefndin að gera sitt ýtrasta til að finna þá lausn vegna þess að ágreiningur er um málið og hann er verulegur í samfélaginu. Við sjáum að sjö umsagnir af hverjum tíu sem bárust um málið til utanríkismálanefndar eru neikvæðar í garð þess. Verkalýðsfélögin, verkalýðshreyfingin, vinnumarkaðurinn er á móti málinu, meiri hluti þjóðarinnar og margir fyrrverandi ráðherrar sem þekkja vel til málaflokksins. Það eru öll rök sem mæla með því að fara með málið fyrir sameiginlegu EES-nefndina sem á að gera, samkvæmt greininni, (Forseti hringir.) sitt ýtrasta til að finna lausnirnar. Einfaldara getur það ekki verið.