149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:59]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður nefndi atriði sem mér þótti mjög áhugavert og fékk mig til að hugsa. Þótt það hafi ekki verið megininntakið í ræðu hv. þingmanns kom hann inn á hversu sérkennilegt það væri að leiða eitthvað í lög sem menn ætluðu ekki að láta gilda sem lög. Þegar maður áttar sig allt í einu á einfaldleika fáránleikans, í mörgum tilvikum þessa máls, vekur það hjá manni hugsanir sem gætu fylgt nokkrar ræður. En ég ætla að láta nægja að byrja á því að spyrja hv. þingmann út í þetta. Við höfum ekki fengið svör frá hæstv. utanríkisráðherra um þetta. En hvers vegna í ósköpunum ættu menn að leiða eitthvað í lög landsins sem þeir vilja ekki að gildi? Maður myndi halda, fyrir það fyrsta, að þetta væri tiltölulega áhættusamt. Þá eru menn með fyrirvara. Við erum nú búin að gera þeim góð skil, við þurfum ekki að gera ráð fyrir þeim lengur. En gefum okkur að þeir sem að þessu standa trúi því raunverulega að fyrirvararnir haldi, bara svona til að reyna að átta okkur á því hvað þetta ágæta fólk er að fara. Gefum okkur að menn trúi því að fyrirvararnir haldi. Hvers vegna þá að leiða þetta í lög? Hvers vegna ekki að fá einfaldlega undanþágur frá því sem á ekki við?

Ég fæ þetta ekki til að koma heim og saman. Finnur hv. þingmaður sem hefur greinilega lesið mikið í mjög ígrunduðum og góðum greinargerðum einhverjar vísbendingar um hvað kunni að ráða för þegar menn fara (Forseti hringir.) í það að leiða eitthvað í lög sem þeir vilja ekki að sé í lögum?