149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:14]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni upphaf ræðunnar um vindmyllur. Ég verð að segja að hann náði athygli minni og ég hlakka til að heyra framhaldið. Þær tölulegu upplýsingar sem hv. þingmaður vitnar til eru beinlínis sláandi. Ég verð að viðurkenna að ég gerði mér ekki grein fyrir að vindmyllur væru svona lítill hluti þeirrar orku sem framleiddur er. Ég gerði mér ekki grein fyrir að orkuþörfin ykist með þessum hætti og að í raun réttri væri útilokað fyrir okkur að bregðast við þessari auknu orkuþörf með vindmyllum.

Eitt sem ég velti fyrir mér með þessar vindmyllur er það sem ég hef orðið vitni að á ferðalögum mínum, m.a. í Bandaríkjunum. Myndast hefur mikil andstaða á ákveðnum svæðum þar sem reistir hafa verið vindorkugarðar, ekki bara vegna sjónmengunar heldur líka vegna hljóðmengunar sem og náttúruvár sem snýr að fuglalífi. Vindmyllur eru náttúrlega sniðug uppfinning og geta virkað í einhverjum tilfellum fyrir lítið, einangrað kerfi. En í þessu magni kemur gríðarlegur niður frá vindmyllum.

Mig langar eiginlega til að forvitnast. Ástæða þess að ég kem í ræðustól er fyrst og fremst sú að ég hlakka til og myndi vilja fá að heyra meira um þetta og hvort farið sé inn á þessa þætti í þeirri grein sem hv. þingmaður talar um.