149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:16]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að halda því til haga sem hv. þingmaður nefnir réttilega, að auðvitað geta vindmyllur stundum átt við sums staðar og þær eru um margt sniðug uppfinning. Vindmyllur sem slíkar eru ekki nýjar og hafa skipt máli við iðnþróun um árþúsundaskeið. En það sem ég hef áhyggjur af í þessu sambandi er samhengi hlutanna, ef Ísland verður hluti af þessum sameiginlega orkumarkaði og menn sjá fyrir sér að landið framleiði sífellt meiri orku. Þar hefur sérstaklega verið bent á vindmyllur, en eins og menn þekkja eru Vinstri grænir, ekki hvað síst, lítið fyrir þessa hefðbundnu, endurnýjanlegu orkugjafa okkar, vatnsaflsvirkjanir og jarðvarmavirkjanir, þeir vilja alla vega ekki fjölga þeim mikið. Þá nefna menn vindmyllur.

Þess vegna tel ég rétt að benda á hversu gríðarlegt magn af vindmyllum þyrfti til að það hefði eitthvað að segja. En hættan er bara sú að menn myndu ganga á lagið og þrýsta á um meira og meira af þessum vindmyllugörðum á Íslandi. Það má t.d. bera það saman við Kárahnjúkavirkjun. Einhvern tímann reiknaði ég út að til þess að framleiða sama afl og Kárahnjúkavirkjun þyrftu vindmyllur að þekja landsvæði á hálendinu sem væri sjöfalt stærra en Hálslón, en það myndi að sjálfsögðu ekki skila þeirri stöðugu orku sem Kárahnjúkavirkjun veitir.

Ég hef áhyggjur af því að innleiðing þessa þriðja orkupakka muni þrýsta á um framkvæmdir sem ég tel, út frá náttúruverndarsjónarmiði, mjög vafasamar, og ekki til þess fallnar að skila neitt sérstaklega mikilli orku en líta vel út í umhverfissamhengi, sérstaklega ef menn eru úti í Evrópu, langt frá vindmyllugörðunum á Íslandi og geta litið svo á að þeir séu þar að þiggja hreina, íslenska orku úr íslenskum vindmyllugörðum.