149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:20]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, mjög góðar spurningar. Ég skal fallast á að það kunni að vera svæði á Íslandi þar sem vindmyllur eiga við. En ég hef áhyggjur af því ef menn fara að líta á Ísland sem einhvers konar orkuver fyrir Evrópumarkað og búa með því til gríðarlegan þrýsting á allt of miklar framkvæmdir í þá veru hér á landi.

Svo ég svari annarri af spurningum hv. þingmanns hefur þetta gríðarlega mikil umhverfisáhrif. Það er ekki bara sjónmengun. Það er ekki bara hávaðamengunin sem hv. þingmaður nefndi og sumir hafa áhyggjur af því að þetta brytji niður fugla. Það þarf líka að steypa gríðarlegan sökkul, gríðarlega mikið mannvirki, enda eru þessar vindmyllur alveg óheyrilega stórar. Bara svona hefðbundin vindmylla getur verið tvöfalt hærri en Hallgrímskirkja þegar spaðinn er í efstu stöðu.

Til þess að halda því uppi þarf gríðarlega mikið steypt mannvirki. Það þarf auðvitað vegi til að koma vindmyllunum fyrir og það þarf raftengingar frá hverri einustu túrbínu hverrar einustu vindmyllu inn á kerfið. Heildaráhrifin af þessu á umhverfið geta því verið gríðarlega mikil.

Menn segja að vísu að þetta séu afturkræf áhrif. En er það í raun, þegar litið er til einhverra áratuga, a.m.k., eða árhundraða, þegar búið er að leggja vegi um allt og kapla og þessa gríðarlegu sökkla?

Í því sambandi er merkilegt að vindmyllur endast alveg furðustutt. Ég hélt þegar ég byrjaði að skoða það að þegar vindmylla væri reist stæði hún þar bara um aldur og ævi. En þær hafa tiltölulega skamman líftíma af orkumannvirkjum að vera.