149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:25]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það blasir við að mínu mati. Ég skal færa rök fyrir því hvers vegna það blasir við. Það er rétt, sem hv. þingmaður bendir á, að ekki er eftirspurn sem vindmyllur myndu mæta sérstaklega í kerfinu núna. En það sem er ekki síður áhugavert er að sú orka sem fæst úr vindmyllum er hlutfallslega miklu dýrari en sú orka sem við getum framleitt með vatnsaflsvirkjunum og jarðvarmavirkjunum. Þess vegna hafa vindmyllur ekki verið samkeppnishæfar á Íslandi eins og orkuverð er hér. Af því leiðir að menn hljóta að gera ráð fyrir því að orkuverð hækki. Þetta tvennt fer saman. Það er verið að gera áætlanir til að mæta eftirspurn sem er ekki til staðar hér innan lands og það er verið að gera áætlanir sem byggjast á því að verðið hækki.

Svo bætist það við sem rökstuðningur í þessu máli að í áformum Evrópusambandsins um tengingu raforkukerfa, þar sem litið er til Íslands, er Ísland skilgreint sem land endurnýjanlegra orkugjafa á þremur forsendum, það eru vatnsaflsvirkjanirnar, jarðvarmavirkjanirnar og sérstaklega er talað um vindgarða. Hér sjá menn fyrir sér nægilegt autt landrými, sem skortur er á víðast hvar í Evrópu, eðli máls samkvæmt. Og þegar þessi tenging er komin á gæti þetta orðið þriðji stóri þátturinn í orkuframleiðslu landsins enda, eins og ég benti á áðan, eru Vinstri grænir ekkert sérstaklega hrifnir af því að fjölga vatnsaflsvirkjunum eða jarðvarmavirkjunum.