149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:32]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Herra forseti. Ég rak augun í grein sem fréttaritari Ríkisútvarpsins hafði ritað. Greinin er frá 24. maí síðastliðnum, hún er alla vega dagsett þá. Fréttaritari er Rúnar Snær Reynisson. Hann veltir því upp hvort skoða eigi að ríkisfyrirtæki eigi að hafa forgang. Fréttaritari gerir orkustefnu að umræðuefni í þessari grein í samhengi við annars vegar hvernig aðrar þjóðir hafa litið á slíkt, en einnig hvað við gerum hér á Íslandi. Ég er einmitt hugsi yfir því af hverju Ísland hefur ekki markað sér heildstæða orkustefnu, þ.e. stefnu sem miðar að því að við nýtum með ábyrgum hætti þá mikilvægu náttúruauðlind sem við eigum hér. Það lýtur fyrst og fremst að vatnsföllum, en einnig að jarðvarma og háhitavirkjunum sem gefið hafa góða raun. Einnig lýtur það að því sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ræddi í fyrri ræðu sinni, sem eru vindmyllur, og svo því sem við höfum minnst gert með, þ.e. sólarorku, og í framtíðinni munum við e.t.v. virkja öldur og strauma hafsins.

Við erum líka að taka okkar fyrstu skref í nýtingu vatnsafls í gegnum rennslisvirkjanir, sem eru býsna mikið þróaðar. Ég hef kynnt mér nokkuð virkjanir og fyrirtæki sem smíða slíka hverfla sem komið er fyrir í straumvatni og framleiða rafmagn. Fyrirtæki í Tékklandi og Kanada hafa sérhæft sig í slíku. En gallinn við þess lags virkjanir er að þær framleiða tiltölulega lítið rafmagn, það er erfitt að ná út úr þeim mjög miklu vatnsafli. Þá er ég að tala um straumvatnsvirkjanir sem liggja í straumvatni en þá er fallhæð ekki nýtt til að knýja hverflana eða túrbínurnar.

Slíkar virkjanir gætu þjónað vel á svipaðan hátt og vindmyllur, þ.e. á svæðum þar sem straumvatn rennur um en er ekki í fallhæð til að nýta í öflugri túrbínur, á sama hátt og vindmyllur myndu nýtast á svæðum sem væru tiltölulega þurr og hefðu ekki yfir vatnsafli að ráða. En kosturinn hins vegar við slíkar virkjanir er að þær raska umhverfi afar lítið eða ekki neitt og geta því hentað að einhverju leyti. En ólíklegt er að þær séu nothæfar eða nýtanlegar til þess að tengjast inn á flutningskerfi raforku í meiri mæli.

Ég held að ég sé búinn að nefna helstu kostina sem hægt er að nýta til að virkja orku úr náttúrunni á hreinan hátt, svo skýrðan, sem til greina kæmu hér á Íslandi þrátt fyrir að það að brenna viði gæti talist endurnýjanleg orka. En skógarnir hafa ekki verið að þvælast fyrir okkur hér á Íslandi.

Varðandi hins vegar stefnu stjórnvalda þegar við erum búin að skilgreina hvað til greina komi að nýta, þá vakti þessi grein áhuga minn vegna þess að inntakið í henni er það að hér er ekki stefna fyrir hendi. Ég held að það sé alvarlegt mál. Reyndar er starfshópur að störfum við að skilgreina slíka stefnu og er það vel. En það er athugavert að við höfum raunverulega ekki orkustefnu en erum samt að innleiða orkupakka þrjú með þingsályktunartillögu.

Nú er tíminn hlaupinn frá mér. Ég ætlaði nú að vera kominn lengra inn í þessa ræðu, en ég fæ kannski að halda aðra ræðu um þetta efni og bið því um að verða settur á mælendaskrá aftur.