149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, stefnan er ekki til og orkustefnan ekki til og hentar ekki þeirri hugmyndafræði sem lagt er af stað með og þeim áætlunum sem felast í því að við verðum eitt markaðssvæði með Evrópu þegar kemur að raforkunni. Ég spyr: Er ekki verið að byrja á röngum enda? Átti ekki að vera löngu búið að marka hér orkustefnu í landinu áður en menn færu að taka þessi skref? Ég held að það sé nokkuð ljóst.

En hvert þetta mun leiða þegar kemur að náttúrunni, þá er ég ansi hræddur um að við gætum þurft að horfa upp á verulegar breytingar. Hv. þingmaður nefndi t.d. ferðamannastrauminn. Þessar vindmyllur, af því að þær hafa verið nefndar í þessari umræðu, eru víða í Evrópu. Við sjáum t.d. þegar við komum til Danmerkur að sjónræn áhrif vindmyllanna eru mjög mikil. Þetta er nokkuð sem eðlilegt er að móta stefnu um áður en sveitarstjórnir fara að heimila hér breytingar á aðalskipulagi o.s.frv. til að greiða fyrir hugmyndum fjárfesta um vindmyllugarða. Það er ekki til nein heildstæð stefna í landinu. Sveitarfélögin hafa kallað eftir því frá stjórnvöldum hvernig haga beri þessum málum vegna hins aukna áhuga á vindmyllugörðum.

Þannig að maður spyr sig, og kannski getur hv. þingmaður komið nánar inn á það: Er ekki bara búið að fara allt of geyst í því að taka (Forseti hringir.) vel í þessar fjárfestingar eins og staðan er, þ.e. engin stefna o.s.frv.?