149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:49]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Þetta er lykilspurning í þessu stóra máli. Ef ég greini spurninguna rétt; telur þú að regluverk hvetji eða letji menn til þess að fara í slík skref og hér er verið að lýsa? Í stóra samhenginu — þetta er eiginlega umræða sem þarf að taka á breiðum grundvelli — þvælist þetta fyrir við innleiðingu. Ég held að það sé alveg morgunljóst að því færri reglur eða því minna mörkuð stefna sem fyrir hendi er, þeim mun auðveldara er raunverulega að innleiða gerðir. Það sem er álitamál hér númer eitt, tvö og þrjú er stjórnarskráin, fyrirvarar. En ef við værum með heildstæða stefnu í orkumálum og umhverfismálum líka sem væri ófrávíkjanleg og væri jafnvel stjórnarskrárbundin eða bundin í lög þannig að við teldum að það myndi fara í bága við þá stefnu, þá myndi það ennú frekar verða erfitt.

En svo er kannski afleidd umræða af sömu spurningu, sem væri mjög gaman að taka hér í ræðustól, þ.e. hvar sækja fjárfestar í að fjárfesta? Er það í löndum þar sem regluverk er rótgróið og mikið þegar kemur að því að nýta auðlindir? Eða er hentugra að gera það þar sem regluverk er í lausum reipum og auðveldara að ganga um auðlindir á frjálslegri hátt, svo að við orðum það kannski ekki á harðari máta?