149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:53]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir síðara andsvarið. Ég held að það sé afar mikilsvert að vera með heilsteypta og mótaða stefnu þó svo að hún, eins og aðrar stefnur, geti vissulega tekið breytingum í tímans rás. Ég held að afar mikilvægt sé að við Íslendingar mörkum okkur stefnu í ljósi þeirrar sérstöðu sem við erum í vegna þess að við höfum sérstöðu á svo mörgum sviðum. Það er ekki bara það að við séum eyja norður í hafi, að við eigum auðlindir sem eru í því magni miðað við höfðatölu landsmanna að vera mjög gjöfular og ríkar en eru ólíkar meginlandshugmyndafræðinni og því sem er að gerast á meginlandinu. Náttúran er líka einstök og náttúran er viðkvæm, mjög viðkvæm og viðkvæmari en á mörgum öðrum svæðum.

Þess vegna tel ég afskaplega mikilvægt að við mörkum þessa stefnu þegar við um leið mörkum okkur stefnu um nýtingu auðlindanna á ábyrgan og sjálfbæran hátt og að við tökum ekki óafturkræf skref umfram það sem kannski nauðsyn krefur, að við nýtum auðlindirnar okkar á arðbæran og sjálfbæran hátt, en tökum ekki þannig skref að við, hvað eigum við að segja, förum að ganga um of á náttúruna og eyðileggja bæði ímynd landsins og náttúrunnar í kringum okkur, vegna þess að það mun til lengri tíma litið sennilega koma í bakið á okkur.

Ég held að það sé afskaplega mikilvægt, hv. þingmaður, að vera með tímaröðina rétta, ekki bara á þessu máli heldur líka á því hvort það eigi að innleiða hér áður en búið er að fara til sameiginlegu EES-nefndarinnar.