149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:03]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Sl. miðvikudag var gerð samþykkt á fundi forsætisnefndar um að boða til aukafundar bæði á fimmtudag og föstudag í þeirri viku sem nú er að verða liðin. Nú erum við komin inn í laugardag og mig langar í þessu samhengi að lesa upp úr lögum um þingsköp þar sem segir, með leyfi forseta:

„Reglulegir þingfundir samkvæmt starfsáætlun skulu ekki standa lengur en til kl. 8 síðdegis. Frá því má þó víkja ef þingflokkar ná samkomulagi þar um eða ef þingið samþykkir, sbr. 81. gr. Tillögu um lengri fundartíma getur forseti borið upp án nokkurs fyrirvara. Þá getur forseti ákveðið að þingfundur standi til miðnættis á þriðjudagskvöldum.“

Ekki er gert ráð fyrir að menn séu hér á næturfundum og fundum fram undir morgun, að það sé normið samkvæmt þessum reglum. Það ætti öllum að vera augljóst. Það er ekki ósanngjörn krafa okkar þingmanna í ljósi þess að aukafundur var samþykktur á fimmtudegi og föstudegi — nú er kominn laugardagur — að fá upplýsingar um það á grundvelli hvaða (Forseti hringir.) ákvörðunar sá fundur stendur.