149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:04]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta þykir mér skondin lagatúlkun hjá hæstv. forseta, að þegar sérstaklega er gert ráð fyrir að einn dag megi þingfundur standa lengur en aðra daga telji hæstv. forseti að það þýði að hina dagana megi þingfundur standa miklu lengur en þann dag þar sem þingfundur mátti standa lengst. Lengi skal manninn reyna, herra forseti.

Ég vil hins vegar grípa það sem hæstv. forseti sagði um mikilvægi þess að nýta tímann vel, og biðja hæstv. forseta að velta fyrir sér hvort hann telji að tíminn nýtist vel ef menn þurfa að ræða málin, t.d. kl. 5 að nóttu, þegar fólk hefur ekki tækifæri til að fylgjast hér með umræðum, þegar þingmenn stjórnarliðsins sem keyra þetta mál áfram hafa augljóslega ekki tækifæri til að fylgjast með umræðum, sem kallar í rauninni á að menn ítreki það sem þeir hafa haft fram að færa við þessar aðstæður á tímum þegar einhverjir kunna að hafa tækifæri til að fylgjast með því.