149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er nokkuð sem ræða þarf mun betur, þ.e. hvaða áhrif þetta hefur á samninginn, verði þessi innleiðing samþykkt í þinginu þrátt fyrir þá miklu andstöðu sem við þetta mál er í þjóðfélaginu. Við sjáum bara þann fjölda umsagna sem koma fyrir utanríkismálanefnd þar sem fólk er neikvætt í garð þessa verkefnis. Sjö af hverjum tíu umsögnum, verkalýðsfélögin, verkalýðshreyfingin, meiri hluti þjóðarinnar.

Ef þröngva á þessu máli hér í gegn held ég að það sé alveg ljóst að menn fara að hafa efasemdir um samninginn, vegna þess að þar með er jú verið að framselja vald sem við höfum í dag, til yfirþjóðlegrar stofnunar. Þá velta menn fyrir sér: Bíddu, var þetta það sem lagt var upp með þegar samningurinn var gerður á sínum tíma?

Fyrrverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, sem þekkir nú þennan samning mjög vel og kom að gerð hans á sínum tíma, hefur einmitt bent á að hvergi var minnst á að orka ætti að vera innan EES-samningsins og reyndar ekki landbúnaðurinn heldur. Þannig að ef síðan á að fara að samþykkja hér eitthvað sem á endanum verður valdframsal held ég að þjóðin segi: Hingað og ekki lengra, og að þessi samningur sé bara orðin kvöð en ekki tvíhliða samningur sem eigi fela í sér fjórfrelsi og tækifæri.