149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:33]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég gerði áðan athugasemdir við sérkennilegar lagatúlkanir hæstv. forseta en nú virðist hæstv. forseti vera farinn að túlka dagatalið upp á nýtt og skilgreina laugardag sem föstudag. Það liggur fyrir, eins og hv. þm. Bergþór Ólason benti á, að dagskrá var breytt þannig að hægt væri að halda þingfund á fimmtudegi og föstudegi. Það er engin slík heimild fyrir þingfundi á laugardegi og raunar verð ég að ítreka það sem ég hef nefnt hér áður, að mér þykir þessi framkoma hæstv. forseta, sérstaklega í garð starfsfólks þingsins, ekki sæmandi. Ímyndar hæstv. forseti sér að hægt sé að þagga niður í þessu máli með því að láta fundi fara fram kl. 5, 6, 7, 8, 9 á morgnana eða að hægt sé að fela málið með því að reyna að láta umræður fara sem mest fram á þeim tíma? Það kallar einfaldlega á að menn þurfa að ítreka mál sitt, ítreka það sem þeir hafa uppgötvað í umræðum sem fara fram á tímum sem þessum.