149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:43]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það má segja að ríkt hafi nokkur eftirvænting hér í gær þegar hæstv. utanríkisráðherra heiðraði Alþingi, vil ég segja, og jafnvel okkur þingmenn Miðflokksins, með nærveru sinni. Þannig var staðið að fundinum að hæstv. ráðherra gaf sér tíma til að sitja hér og hlýða á nokkrar ræður þar sem þingmenn drógu saman nokkra af stærstu punktunum sem ræddir hafa verið meðan hann hefur verið að sinna erindum á vegum ríkisins á erlendri grundu.

En þegar kom að málflutningi hæstv. ráðherra held ég að grípa verði til orðalags úr íþróttunum: Það er varla hægt að segja að hann hafi gert gott mót. Málflutningur hæstv. ráðherra fólst í því að hann svaraði fæstu af því sem leitað var skýringa á frá honum. Þó eru tvær mikilvægar undantekningar í því efni. Einnig kom fram að hann hefur engu gleymt af því sem hann virðist hafa tileinkað sér í stjórnmálaskólanum í Valhöll, en kannski eru það ekki aðferðir sem mættu teljast af virðulegasta tagi, því miður.

Mjög þýðingarmiklar spurningar voru lagðar fyrir hæstv. ráðherra. Hann var spurður út í lagalegan fyrirvara. Hann var spurður út í þjóðréttarlegt gildi hans. Hann var spurður út í mögulegan árekstur við stjórnarskrána af innleiðingu þriðja orkupakkans. Hann var spurður út í það álit þeirra sérfræðinga sem hann kallaði sjálfur til starfa sem lögfræðilega ráðunauta að innleiðing á orkupakkanum, sér í lagi innleiðing á reglugerð 713/2009, muni hafa í för með sér a.m.k. óbein áhrif erlendra stofnana á skipulag, ráðstöfun og nýtingu mikilvægra orkuauðlinda þjóðarinnar, svo að ég haldi mig við orðalagið í álitsgerð hinna lögfræðilegu ráðunauta hæstv. utanríkisráðherra. Leitað var eftir því við hæstv. ráðherra að lögð yrðu fram ítarlegri gögn í þessu máli öllu, lögfræðileg álitsgerð um hinn lagalega fyrirvara. Það er svolítið sérkennilegt að verða vitni að því að ráðherra í ríkisstjórn Íslands virðist ekki gera greinarmun á sendibréfi og lögfræðilegri álitsgerð. Látum það liggja á milli hluta.

Herra forseti. Tvennt sem ráðherra sagði kom hins vegar mjög á óvart, annars vegar að ástæðan fyrir því að ljúka þyrfti þessu máli væri sú, eins og aðrir hv. þingmenn hafa reyndar rakið, að þá muni koma fram að áhættulaust væri að innleiða þennan orkupakka, en svo hitt að lagalegra fyrirvara væri að leita í nefndaráliti eða meirihlutaáliti nefndar. Það er algerlega ný kenning og ég þarf að koma að því hér síðar.