149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:53]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Við bundum vissulega vonir við þessa heimsókn, sérstaklega í ljósi þess að umræðan hér í þinginu hefur leitt svo margt nýtt í ljós. Og enn hafa orðið tíðindi í nótt í þeim efnum. Ég vil í því sambandi nefna með hvaða hætti hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson leiddi það fram, með því að vísa í frumgögn og draga af þeim eðlilegar ályktanir, að fyrirvararnir hefðu nákvæmlega ekkert gildi. Það gerði hann með því að sýna fram á að verði þriðji orkupakkinn samþykktur hér verður hann þá og þegar innleiddur í íslensk lög eins og hann leit út 2017 þegar hann var fyrir sameiginlegu EES-nefndinni, löngu áður en að þessir ímynduðu fyrirvarar utanríkisráðherrans litu dagsins ljós, löngu áður en hæstv. utanríkisráðherra fékk þá flugu í höfuðið, eða hver sem kom þeirri hugmynd fyrir þar, að hægt væri að leysa málið og fá hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins til fylgilags við það með því að tala um einhverja fyrirvara. Það hefði verið gott að geta rætt þetta við ráðherrann, en mér heyrðist á honum, að svo miklu leyti sem hann svaraði einhverju, að hann teldi raunverulega að þessi fyrirvari hefði eitthvert gildi.

Mig langar að biðja hv. þingmann að reyna að greina þetta með mér. Það var ekki svo auðvelt að átta sig á því hvert ráðherrann var að fara. En er það rétt skilið að hæstv. ráðherra telji enn að fyrirvari sé til og að hann hafi vægi?