149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:55]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Leit stendur yfir að fyrirvaranum og það eru menn að vinna í því með sérfræðilega þekkingu við slík störf. Ég mun rekja það nánar. En áttum okkur á því, herra forseti, að lagalegi fyrirvarinn er tiltölulega nýtilkominn inn í málið. Menn leiðrétta mig ef ég hef rangt fyrir mér þegar ég segi: Hann kemur ekki fyrr en með lokaútgáfu álitsgerðar þeirra Friðriks Árna og Stefáns Más og það er í mars.

Í sjálfri álitsgerðinni er mikilvæg heimild um samskipti fræðimannanna og ráðuneytisins. Það er 6. kafli af sjö í álitsgerðinni. Það er greinilegt að af hálfu ráðuneytisins hafa verið teknar upp viðræður af einhverju tagi við fræðimennina sem þeir fjalla um í 6. kafla, þar hafa komið fram ábendingar, og þeir fjalla um þær. Ástæða er til þess að fara hér mjög nákvæmlega yfir þann texta í ræðu nú og síðar. En að það sé sagt af hálfu ríkisstjórnarinnar að málinu fylgi lagalegur fyrirvari þegar verið er að tala um árekstur við stjórnarskrá hlýtur að þýða, og getur ekki gert neitt annað, að grípa eigi til aðgerða í tengslum við þetta mál sem hafi þjóðréttarlegt gildi og yrði metið þannig.

Við höfum kallað eftir því að lögð verði fram vönduð, grjóthörð, eins og ég hef leyft mér að orða það, lögfræðileg álitsgerð um þjóðréttarlegt gildi fyrirvarans þegar og ef hann finnst.