149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:00]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eftir ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar 15. maí sl. var ljóst að efna þyrfti til leitar að þessum fyrirvara. Eftir ræðu hans hafa komið fram fjölmargar tilgátur — í háskólaumhverfinu myndu menn segja rannsóknartilgátur — og þær koma úr ýmsum áttum. Margir hv. þingmenn hafa teflt fram einhverju sem þeir virðast telja vera þennan fyrirvara.

Við í Miðflokknum viljum að sjálfsögðu leggja okkar af mörkum og þannig stendur á að við erum svo vel sett að við erum með í þingliði okkar mann sem hefur til að bera sérþekkingu á ýmsum sviðum. Fyrir utan það að vera lögfræðimenntaður hefur hann mikla reynslu af lögreglustörfum sem lögreglustjóri og skólastjóri Lögregluskólans. Hann hefur, eins og menn þekkja sem hafa setið þessa fundi og fylgst með þeim, flutt hér áfangaskýrslur um það hvernig því starfi miðar. Það verður að segjast að nýr kapítuli hlýtur að vera fram undan hjá fyrrverandi lögreglustjóra við að greina þennan nýja fyrirvara sem skyndilega dúkkaði upp í gær, þegar hæstv. ráðherra talaði um að lagalegi fyrirvarinn væri texti einhvers staðar í áliti meiri hluta í þingnefnd.

Er ráðherranum full alvara þegar hann segir þetta? Á einhver texti í áliti þingnefndar að hafa þjóðréttarlegt gildi? Við bíðum spennt eftir næstu áfangaskýrslu.