149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:02]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið sem var afar upplýsandi að því leyti að leit standi enn yfir. Ég veit fyrir víst að dauðaleit hefur verið gerð að þessum fyrirvörum, en enn sem komið er hafa þeir ekki fundist. En við höfum samt ekki gefið upp alla von vegna þess að þessir fyrirvarar eru afar mikilvægir, að þeir séu til staðar. Það hefur verið látið í ljós af þingmönnum hins háa Alþingis, hvar í flokki sem þeir standa, að afar mikilvægt sé að fyrirvararnir séu til og að þeir haldi án nokkurs vafa og með fullri vissu og að ekki káfi upp á þessa fyrirvara, sérstaklega að þjóðarétti en einnig að landsrétti. Við viljum öll auðvitað að vinnubrögð Alþingis séu bæði að formi og efni til með þeim hætti að það standist skoðun.

Varðandi veru hæstv. utanríkisráðherra hér í gær langar mig til að trúa því að hann hafi gert sitt besta í því að veita svör. En hver er skoðun hv. þingmanns á því? Voru svörin fullnægjandi?