149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:07]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Forseti. Ég held áfram þar sem frá var horfið með ræðu mína um vindmyllur. Eins og ég var búinn að gera tiltöluleg ítarlega grein fyrir eru vindmyllur nátengdar áformum um þriðja orkupakkann. Ég hef einnig fjallað um hversu mikið eftirspurn eftir orku muni vaxa á komandi árum, eða um 2% á ári, eins og það hefur reyndar gert undanfarin 40 ár. Til þess eins að svara þeim vexti þyrfti 350.000 gríðarstórar vindmyllur sem myndu þekja stærra svæði en Bretlandseyjar, bæði Bretland og Írland. Í ljósi þess að menn líta á vindmyllugarða sem eina af þremur meginstoðum orkuframleiðslu á Íslandi í tengslum við hlutverk þess í sameiginlegu orkukerfi Evrópu þyrfti að þekja býsna stóran hluta landsins til að það skipti einhverjum sköpum. En það þykir líta vel út að segjast vera að selja rafmagn framleitt með vindmyllum.

En hversu umhverfisvænt er það í raun? Tökum sem dæmi framleiðslu á seglunum í túrbínurnar sjálfar. Vegna gríðarlegrar aukningar á eftirspurn eftir vindmyllutúrbínum hafa heilu héruðin, ekki hvað síst í Kína, nánast verið lögð í eyði eða eyðilögð umhverfislega séð vegna þess að það þarf gríðarlega námuvinnslu til að grafa upp málminn í þessa segla. Afleiðing af því er losun á mjög umtalsverðu magni af geislavirku efni. Svo eru það vindmyllurnar sjálfar, mannvirkið sem slíkt. Það þarf 200 sinnum meira efni á hverja einingu af orkuframleiðslu í vindmyllu en í gastúrbínu. Til þess að ná sama magni af orku þarf 200 sinnum meira efni notist menn við vindmyllur frekar en gastúrbínur.

Úr hvaða efni eru vindmyllur framleiddar? Sérstaklega úr stáli. En þær vega um 250 tonn stykkið — 250 tonn. Og hvernig er þetta stál framleitt? Hvernig eru 250 tonn af stáli í eina vindmyllu framleidd? Jú, með kolabruna, ekki hvað síst í Kína. Þá þurfum við í Evrópu kannski ekki að sjá það og ekki að anda að okkur kolareyknum, svo að menn sleppa því að taka það með í reikninginn þegar þeir tala um það hversu umhverfisvænar vindmyllurnar séu; þeir horfa einfaldlega fram hjá þeirri losun sem á sér stað þegar vindmyllurnar eru framleiddar. En það þarf að brenna u.þ.b. hálfu tonni af kolum fyrir hvert tonn af stáli sem framleitt er. Og svo er það sementið, því að til að setja upp hverja vindmyllu þarf gríðarlegar undirstöður. Þetta eru óhemjustór og há mannvirki og þurfa þar af leiðandi miklar járnbentar og steinsteyptar undirstöður og tengivegi milli vindmyllnanna og raftengingar. Við framleiðslu á sementi losnar gríðarlegt magn gróðurhúsalofttegunda. Sementsframleiðsla er reyndar einn af stærri þáttunum í losun gróðurhúsalofttegunda og er mjög áhugavert hversu mikil losunin er í því framleiðsluferli.

Niðurstaðan er sem sagt sú að fyrir hverja vindmyllu þarf að brenna um 150 tonnum af kolum. Ætli menn að mæta orkueftirspurn, aukningunni einni í eins árs orkueftirspurn, með því einfaldlega að bæta við vindmyllum, þessum 350.000 á ári sem ég nefndi í fyrri ræðu, þarf að brenna 50 milljónum tonna af kolum á ári. Leggur Ísland virkilega sitt af mörkum í baráttunni gegn losun gróðurhúsalofttegunda með því að verða vindmyllugarður fyrir Evrópu?