149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:15]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er nefnilega svo merkilegt að hægt er að reikna það, a.m.k. áætla það, og tölusetja, en menn gera bara allt of lítið af því. Fyrir vikið eru ekki teknar ákvarðanir í loftslagsmálum, og orkumálum um leið, sem skila mestum árangri. Þvert á móti er verið að taka ákvarðanir út frá ímynd. Vindmyllurnar eru gott dæmi um að menn reikni ekki heildaráhrifin. Ímyndin er sú að þetta sé svo umhverfisvænt og þess vegna sækja menn í að kaupa orku sem er framleidd með þessum hætti. Ríkisstjórnir í Evrópu hafa varið óhemjufé í að styrkja framleiðslu á slíkri raforku, ekki hvað síst, og reyndar alveg sérstaklega, með vindmyllum.

En hvernig er hægt að fjármagna þetta? Þetta er fjármagnað með hærra orkuverði. Þess vegna er víða í Evrópu farið að tala um orkufátækt. Fólk lendir í fátækt, ekki hvað síst eldri borgarar, vegna þess að orkukostnaðurinn er orðinn það mikill. Fólk hefur varla efni á því að kynda húsin sín eða elda sér mat og þar fram eftir götunum, m.a. og ekki síst vegna þess að ríkisstjórnirnar verja svo miklu ríkisfé í að styrkja þessa orkuframleiðslu þó að menn líti á sama tíma ekki á heildaráhrifin.

Ég hef því miklar efasemdir um að rétt sé að miða við að Ísland verði með þessar þrjár stoðir í orkuframleiðslu, vatnsaflsvirkjanir, jarðvarmavirkjanir og vindmyllur, og þessar þrjár stoðir verði einhvers konar orkubú fyrir Evrópu.