149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:19]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Ég tel líklegt að það muni einmitt gera það vegna þess að þessi afmarkaði framleiðslumáti, vindmyllur, er einmitt þegar orðinn sterk vísbending um hvers má vænta af þessum orkupakka. Allt í einu var farið að sækja um að reisa vindmyllugarða vítt og breitt um landið. Þegar þær upplýsingar bætast við sem hv. þingmaður er að biðja um, fáum við fyllri mynd af þessu. Ég er dálítið hræddur um að hún verði til þess fallin að renna stoðum undir áhyggjur okkar af því að fjárfestar hafi gert sér grein fyrir því, hugsanlega á undan ríkisstjórninni, hvaða afleiðingar þriðji orkupakkinn komi til með að hafa. En ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að það er mikilvægt að velta fyrir sér heildarmyndinni og það þarf að skoða ólíka framleiðslumáta orku til þess að geta tekið sem skynsamlegastar ákvarðanir.

Það er hins vegar ekki skemmtileg framtíðarsýn fyrir okkur Íslendinga að við verðum einhvers konar orkuver fyrir Evrópu, framleiðum orkuna og flytjum hana út til Evrópu þar sem hún verður notuð til atvinnusköpunar, að hér verði vindmyllugarðar um allar trissur, því að ekki vilja Vinstri grænir alla vega fleiri vatnsaflsvirkjanir eða jafnvel jarðvarmavirkjanir. Það hefur verið nefnt, sem viðbótin sem geti fóðrað þennan sæstreng, að Ísland verði einn stór svindmyllugarður. Við flytjum út þessa endurnýjanlegu orku og Evrópumenn nýta hana í atvinnusköpun hjá sér. Svo munum við ekki einu sinni geta sagt að við hér á Íslandi séum að framleiða 100% endurnýjanlega orku vegna þess að orkan fer öll í einn pott og því verður haldið fram að sú orka sem við notum til þess að lýsa húsin sé framleidd með kjarnorku, kolabruna o.s.frv. Þá verður það orðið rétt því að orkan mun öll koma úr sama pottinum.