149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:21]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa ræðu sem er reyndar framhald af ræðu sem hann byrjaði á fyrr í morgun. Það sem vekur athygli mína og hvetur mig til að fara hingað upp í andsvar eru þær tölfræðilegu staðreyndir sem hv. þingmaður hefur lagt á borðið fyrir okkur. Þær hljóta að skipta verulegu máli þegar við ræðum og mörkum okkur bæði umhverfis- og orkustefnu. Við hljótum að þurfa að hafa í huga þessa merkilegu ræðu og tölfræðilegar staðreyndir um vindmyllur áður en við stígum slík skref sem hér er um rætt á sama tíma og við erum að ræða það að fólk eigi að hætta að ferðast eða vera með flugviskubit eða eitthvað slíkt hér á Íslandi.

Mér finnst það líka afar athyglisvert að fjárfestar sýni því áhuga að fjárfesta hér á Íslandi í vindorkugörðum með því kolefnisspori sem hér hefur verið lýst og kannski er þeirri lýsingu ekki lokið, það verður kannski framhald á þessari ræðu hér, ég gæti allt eins trúað því. Mér finnst það athyglisvert að þeir sýni því áhuga að fjárfesta fyrir slíkar fjárhæðir í landi eins og Íslandi þar sem umframorka í raforkukerfinu, samkvæmt heimasíðu Landsvirkjunar, er 1,9 TWst, sem er umtalsverð orka, og á sama tíma er verð á raforku í því kerfi u.þ.b. helmingur af því sem gerist að meðaltali í Evrópu. Þannig að kolefnissporið, umhverfisáætlun, raforkuáætlun, eða orkuáætlun öllu heldur, (Forseti hringir.) og verðið á markaði — getur verið að eitthvað annað liggi undir hér en að framleiða orku á Íslandi?