149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:26]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir andsvarið. Já, það er afar áhugavert að á sama tíma og við höfum enga stefnu í orkumálum og ekki fullmótaða stefnu í umhverfismálum þá sé áhugi fjárfesta vaxandi, áhugi á því að fjárfesta í kerfi sem er ekki fullmótað varðandi regluverk um náttúruna og orkumál, áhugi á því að fjárfesta í virkjunarkostum sem væru dýrari en vatnsaflsvirkjanir. Síðan kemur sú staðreynd að stjórnvöld ganga fram af allnokkurri hörku, leyfi ég mér að segja, við að keyra þetta mál í gegn, að innleiða þriðja orkupakkann án fyrirvara og án haldbærra raka, vegna þess að þau hafa lýst því yfir að það sé vilji þeirra að hafa fyrirvara sem haldi.

Mér finnst það vel þess virði að standa hér, sem Íslendingur sem hefur áhuga á að standa vörð um fullveldi þjóðarinnar, og krefjast fullnægjandi svara þar til þau berast. Eða hverjar eru hugleiðingar hv. þingmanns varðandi það?