149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:30]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að grípa þennan bolta á lofti um þátttöku stjórnarliða í þeim þingfundi sem hér fer fram. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um stjórnarliða sem neita og forðast að taka þátt í umræðunni á málefnalegum nótum eða til að færa rök fyrir máli sínu, veita andsvör, hrekja rök og æfa samræðulistina en mæta svo til að taka þátt undir liðnum fundarstjórn forseta á þingfundi sem þeir sitja ekki. Og svo eru aðrir hv. þingmenn eins og hv. þingmaður sem kom hingað inn í sal einhvers staðar í umræðunni og var með frammíköll undir ræðum þingmanna.

En ég var byrjaður að halda ræðu fyrr í kvöld sem ég náði ekki að klára og varðar hvort skoða eigi að ríkisfyrirtæki eigi forgang á virkjunarkostum og nýtingu orkuauðlinda. Það sem vakti áhuga minn á að ræða hér var blaðagrein sem fréttaritarinn Rúnar Snær Reynisson hjá Ríkisútvarpinu skrifaði. Með leyfi forseta, kemst fréttaritari svo að orði:

„Orkustefna hefur enn ekki verið mótuð fyrir Ísland og stjórnvöld hafa ekki ákveðið hver skuli nýta orkuauðlindir í opinberri eigu, ríki eða einkaaðilar. Starfshópur sem skoðar hvernig úthluta skuli nýjum nýtingarleyfum horfir meðal annars til Norðmanna sem juku hlut opinberra fyrirtækja og lögðu höft á úthlutun til einkaaðila.“

Þá er það væntanlega gert til að viðhalda eignarhlut þjóðarinnar í orkuauðlindum landsins. Fréttaritari heldur áfram og segir:

„ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, telur að pottur sé brotinn í gjaldtöku af orkuauðlindum ríkisins og hvernig nýtingarleyfum er úthlutað. Raforkufyrirtæki greiða ekki auðlindagjald til ríkisins jafnvel þó þau nýti orkuauðlindir í opinberri eigu. Meira en tvö ár eru liðin frá ákvörðun ESA um að endurgjaldslaus nýting geti falið í sér ríkisaðstoð og verið brot á EES-samningum. ESA vill að ríkið skilgreini hvernig taka skuli gjald fyrir nýtinguna og horfi til þess sem tíðkast á markaði. Einnig hvernig nýjum leyfum verði úthlutað í framtíðinni. Í rökstuddu áliti ESA frá 2015 kemur fram að nýtingarréttindum skuli úthlutað í valferli þar sem jafnræðis sé gætt. Tryggja skuli að nýtingartími sé ekki lengri en þörf krefur til að fjárfestirinn fái sitt til baka ásamt hæfilegum arði. Viðkomandi megi heldur ekki að mati ESA fá forgang til að endurnýja nýtingarsamning að þeim tíma liðnum.“

En hvað þýðir það að fjárfestirinn fái sitt til baka ásamt hæfilegum arði? Er þetta ekki svolítið opið orðalag? Og hver er það hjá ESA? Eru það ekki mannlegir menn eins og við sem ákveða það hvað sé hæfilegur arður? Hver ætli skapi þennan hæfilega arð af orkunni sem framleidd er úr auðlind þjóðar, sem er í sameiginlegri eigu og hefur verið virkjuð í þágu samfélagsins? Er þetta stefna sem við viljum taka upp og innleiða með tilkomu þriðja orkupakka og þá þess fjórða sem er í farvatninu?

Ég sé að græna ljósið er farið að blikka á mig. Ég er ekki búinn með þessa ræðu en hyggst halda áfram með hana seinna í dag. Ég óska eftir því að hæstv. forseti setji mig aftur á mælendaskrá.