149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:35]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Þegar séra Jón Prímus og dr. Godman Sýngmann eru á tali verður séra Jóni að orði við dr. Godman Sýngmann:

„Mikil iðn Mundi minn, mikil iðn.“

Og það er mikil iðn að framkvæma svokallað arðsemismat. Sú iðn er kennd í háskólum og mjög margir leggja fyrir sig þau fræði; viðskiptafræði, hagfræði, og sjálfur er maður ekki alveg saklaus af því að hafa leiðbeint fólki í þeim efnum. Það eru til hin glæsilegustu forrit sem gera þetta allt saman mjög haganlega.

Og þá er galdurinn sá, eins og hv. þingmaður vék að, bæði beint og óbeint í sinni góðu ræðu, að hægt er að skjóta inn mismunandi forsendum og sjá þá hver niðurstaðan verður. Slíkt arðsemismat er auðvitað mjög viðkvæmt — eða næmt, getum við kannski frekar sagt — fyrir þeim forsendum sem lagðar eru til grundvallar varðandi arðsemiskröfu.

Að sjálfsögðu eru það breyskir menn, eins og við hinir, og mannlegir sem framkvæma slíkt mat, hvort sem það er á vettvangi þeirrar virðulegu stofnunar, Eftirlitsstofnunar Evrópu, eins og hv. þingmaður fjallaði um, eða annars staðar. En við verðum líka að hafa það í huga og megum ekki gleyma því, leyfi ég mér að segja sérstaklega og beini máli mínu til hv. þingmanns, að þegar við fjöllum um þessar stofnanir Evrópu má ekki gleyma ACER sem svo er kölluð, hinni evrópsku orkustofnun. Því að gert er ráð fyrir, enda þótt við eigum ekki nema áheyrnaraðild að þeirri stofnun, að hún muni fá umtalsverð áhrif varðandi (Forseti hringir.) ákvarðanir í orkumálum hér á landi.