149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:40]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Stundum er hægt að greina hluti óbeint og þeir sem myndu kannski ekki vilja hætta sér út á hinar hálu brautir arðsemismatsins gætu sem best virt fyrir sér atferli þeirra aðila sem bera starfsheitið eða eru gjarnan nefndir fjárfestar, ég tala nú ekki um ef það eru svokallaðir alþjóðlegir fjárfestar.

Þegar við sjáum að fjárfestar eru farnir að beina sjónum sínum að vindorkunni og farnir að leita eftir rannsóknarheimildum og virkjunarheimildum sjáum við að það er óbein endurspeglun á því að þessir aðilar hafa lagt niður fyrir sér með arðsemismatið hvernig hagfelldast sé og ábatasamast fyrir þá að ávaxta sitt pund, eins og það heitir. Þeir sem hafa lagt fram óskir um rannsóknarleyfi og virkjunarleyfi þegar kemur að vindorku hafa greinilega komist að þeirri niðurstöðu að fé þeirra væri vel varið og að slík starfsemi muni reynast ábatasöm. Skilaboðin þar eru náttúrlega skýr.

En það er kannski rétt, fyrst við erum að tala um þetta, laust og bundið, og í framhaldi af þeim orðum sem féllu af hálfu hv. þingmanns verður manni hugsað til þess að það skortir á miklu fastari stefnumótun í orkumálum hvað þennan þátt varðar, eins og svo fjölmarga aðra.