149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:47]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að stutta svarið við þeirri spurningu sé: Jú. Ég held að það sé mikill skortur á því að þetta hafi verið rætt. Þjóðin á mikið undir. Auðlindirnar sem um er rætt eru í eign þjóðarinnar. Það sem er undir líka er flutningskerfi raforku. Þær breytingar sem koma til með að felast í breytingu á lagaumhverfi er varða orkumál með innleiðingu orkupakka þrjú eru þess eðlis að þær munu hafa mikil áhrif á ráðstöfun og nýtingu orkuauðlindarinnar og líka dreifikerfisins, sem er í eigu þjóðarinnar og þjóðin hefur fjárfest í.

Við höfum sem þjóð lagt í það bæði vinnu og hugvit og skattfé á þeirri forsendu að það myndi skila sér aftur til þjóðarinnar til lengri framtíðar, ekki fyrir einhverjar einskiptisgreiðslur sem í tímans rás myndu skoðast sem svo að væru aldrei fullt verð fyrir það sem við höfum í höndunum hér.