149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:49]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég held einmitt að þessi viðskiptalegu álitaefni og þessir viðskiptalegu hagsmunir þjóðarinnar hafi ekki verið skoðaðir nægilega vel þegar kemur að innleiðingu orkupakkans. Auðvitað þarf að skoða alla þætti málsins. Það þarf að skoða þetta heildrænt. Gleymum því ekki að lágt orkuverð og góð lífskjör fara jafnan saman. Við erum jú að horfa til framtíðar. Ég sagði það hér fyrr í kvöld að það er nú gallinn, virðist vera við Íslendinga og stjórnvöld hér, að ekki er horft nægilega langt fram í tímann, eins og þjóðir gera, eins og t.d. Kínverjar gera, þeir horfa tugi ára ef ekki öld fram í tímann í þessum efnum.

Þá veltir maður fyrir sér: Er ekki viðbúið að hér gætu lífskjör versnað? Að með innleiðingunni, þegar sæstrengur verður kominn og þetta verður allt komið í fullan gang, orkupakki þrjú og í framhaldinu orkupakki fjögur, værum við í raun að skerða lífskjör komandi kynslóða?