149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:51]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir síðara andsvarið. Jú, ég held að það sé málið, að þetta þurfi að ræða í þaula. Þetta á eftir að ræða hér og ætti náttúrlega að vera rætt og sett inn í þessa heildarorkustefnu og því ættu að fylgja mjög ítarleg gögn, tæknilegs eðlis. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því, þegar við mótum orkustefnu, hvað gerist ef við leggjum sæstreng. Gefum okkur að það sé raunverulegur vilji stjórnvalda að leggja ekki sæstreng og vera með fyrirvara svo að það komi ekki til álita fyrr en íslenska þjóðin vill það, þá og þegar, og gefum okkur að við séum á þeim stað, þó að ég telji það ólíklegt, að einhverjum árum seinna viljum við leggja sæstreng — Bretland hefur gengið úr Evrópusambandinu en vantar orku og við erum í dauðafæri að selja Bretum orku í gegnum sæstreng. Við höfum ákveðið að leggja hann á okkar eigin forsendum yfir til Bretlands. Þurfum við þá ekki að gera okkur grein fyrir því hversu mikla orku þurfi til að fæða jafnstraumskapal sem er þetta stór og mikill? Og viðnámið? Hversu mikið getur náttúran borið, t.d. með tilliti til fólksfjöldaspár fyrir Ísland, vegna þess að við verðum ekki 350.000 til allrar framtíðar, okkur mun fjölga? Við þurfum að hafa næga orku fyrir þjóðina fyrst. Hvað er þá afgangs til að selja og hversu mikið er hægt að ganga á auðlindina?

Ég held að það sé (Forseti hringir.) eðlilegt og heilbrigt að taka þessa umræðu og skoða heildarsýnina í miklu stærra samhengi.