149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:03]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Mér finnst þetta svolítið skuggalegt. Ef staðreyndir sem liggja fyrir og hægt er einfaldlega að vísa í á blaði eða töflu eða þess vegna í rafmagnsreikningi hv. þingmanns — ef stjórnarliðar leyfa sér að halda því blákalt fram að þetta sé bara ekki rétt, það sem hægt er að sýna á blaði; nei, þetta er bara ekki rétt — hvað segir það okkur um viðhorf þessa fólks til málsins í heild? Það er mjög ískyggilegt, herra forseti.

En af því að við vorum að ræða um langtímaáhrifin og að þau komi kannski ekki strax í ljós og það sé ákveðin hætta í því fólgin, þá veit ég ekki hvort hv. þingmaður hefur séð grein sem ég rakst á í Morgunblaðinu frá því árið 2002. Hún fjallar einmitt um annan orkupakkann, sem hét á þeim tíma önnur raforkutilskipun Evrópusambandsins. Hún var ekki nærri því eins íþyngjandi eða víðtæk og þriðji orkupakkinn. En það voru ýmsir þingmenn á þeim tíma sem vöruðu við þessari innleiðingu, þeirra á meðal Björn Bjarnason.

Ég hef ekki tíma í stuttu andsvari til að lesa upp úr þeirri grein. En það er skemmst frá því að segja að allar þær viðvaranir sem menn höfðu hér fram að færa komu svo á daginn; um áhrif á verð orkunnar, um áhrifin fyrir landsbyggðina, um möguleikana til að nýta Landsvirkjun og orkuframleiðslu hennar til að stuðla að atvinnusköpun á landsbyggðinni, ekki hvað síst. Allar viðvaranirnar sem nefndar eru í þessu viðtali komu á daginn.

Hins vegar er ekki nefnd nein skýring á því hvers vegna menn töldu sig þurfa að innleiða það, önnur en sú að utanríkisráðherra þess tíma, Valgerður Sverrisdóttir, sagði að Evrópusambandið þyrfti að gera það fyrir ákveðna dagsetningu.