149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni, það er heilmikill munur á þessari orkuframleiðslu, þ.e. vatnsorkunni og framleiðsluaðferðum hennar og svo aftur vindorkunni. En það sem er náttúrlega kjarninn í þessu öllu saman er verðið á raforkunni til heimila og fyrirtækja. Það er það sem skiptir almenning í landinu öllu máli. Verðið kemur til með að hækka vegna þess að, eins og við höfum rakið hér, eftirlitsgjaldið er að hækka. Það kemur strax til framkvæmda um leið og búið er að samþykkja þetta. Ekki er búið að reikna það út hvað það er mikið og það finnst mér vera ágalli að ekki skuli vera til neitt um það hvað það kemur til með að hækka mikið.

Síðan má ekki gleyma því að þegar þessi vindorkuver eru farin í gang, áður en þau hefja starfsemi, þarf að tengja þau við dreifikerfið. Samkvæmt orkupakka þrjú má sá kostnaður ekki fara á orkuframleiðanda. Hann fer þá náttúrlega á þann sem sér um tengivirkið, sem síðan mun þá fara út í verðlagið og á endanum er það almenningur sem borgar. Það er alveg ljóst. Í farvatninu eru hækkanir, þrátt fyrir að sæstrengur komi ekki á næstunni. Það er rétt að halda því til haga.