149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:22]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir greiningu hans á orðum hæstv. utanríkisráðherra seinni partinn í dag. Hv. þingmaður vék að því sem hann kallar pólitískt umboð og spyr sig hvaðan ríkisstjórnarflokkunum komi það umboð að innleiða regluverk orkutilskipunar Evrópusambandsins þar sem lögfræðilegir ráðgjafar ríkisstjórnarinnar hafa bent á að ákvæði í þessu regluverki — þeir nefndu þar sérstaklega 7., 8. og 9. gr. reglugerðar nr. 713/2009 — sem þeir ráðgjafar telja verulegan vafa leika á að standist íslensku stjórnarskrána, lög nr. 33/1944. Hvaðan kemur þetta umboð?

Hann skýrði frá því að ríkisstjórnin myndi, eftir ráðleggingum þessara sérfræðinga, hengja við málið svokallaða lagalega fyrirvara. Þá væri öllu óhætt og þeirri stjórnskipulegu áhættu sem við höfum verið að benda á væri ýtt til hliðar og við laus við hana.

Hvert er álit hv. þingmanns og túlkun á orðum hæstv. utanríkisráðherra, sem við vinnum nú að að greina, á því hvort hann hafi nefnt það eða komið því að hver þessi lagalegi fyrirvari sé?