149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:31]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður nefndi Jón Baldvin Hannibalsson og mjög afdráttarlausa greinargerð hans um þetta mál. Í því sambandi vil ég benda á að þeir hafa verið allmargir, reyndu fyrrverandi stjórnmálamennirnir, sem hafa blandað sér í þessa umræðu. Frá vinstri kantinum má nefna Ögmund Jónasson, sem varar við markaðsvæðingu orkunnar, og raunar Hjörleif Guttormsson, sem varar við hættunum sem umhverfisnefnd stafi af þriðja orkupakkanum. Jón Baldvin, fyrrnefndur, ver Evrópusamstarfið og lýsir hættunum sem stafi af því ef við förum niður braut þriðja orkupakkans.

Frá Framsóknarflokki má nefna menn eins og Guðna Ágústsson og Frosta Sigurjónsson sem til að mynda benda á þá hættu sem byggðir landsins standi frammi fyrir, verði þessi þriðji orkupakki samþykktur. Og frá hægri menn á borð við Davíð Oddsson og Sturlu Böðvarsson, fyrrverandi forseta Alþingis, sem talaði um mikilvægi þess að verja sjálfstæði og fullveldi landsins, verja lögin.

Það segir mér að þetta er býsna merkilegt mál, þessi þriðji orkupakki. Það er það slæmt að reyndir menn frá vinstri til hægri mæla eindregið gegn því á hinum ýmsu forsendum, allt samt grundvallaratriðum í stefnu þeirra flokka og pólitísku sýnar. Það hlýtur að teljast sögulegt mál í rauninni, sem nær að vera nógu slæmt til þess að það veki upp áhyggjur hjá mönnum alveg frá vinstri til hægri sem telja það vega að grundvallarsjónarmiðum hugmyndafræði sinnar.