149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:36]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel rétt að bæta aðeins við þetta því að það er ekki nóg með að þessir reyndu stjórnmálamenn, frá vinstri til hægri, gjaldi varhuga við innleiðingu þriðja orkupakkans, svo ekki sé meira sagt, því að stuðningsmenn flestra flokka, a.m.k. allra ríkisstjórnarflokkanna, eru eindregið mótfallnir innleiðingu þriðja orkupakkans og almenningur í heild. Mikill meiri hluti landsmanna er andvígur þessari innleiðingu.

Því spyr ég: Má ekki halda því fram að það sem við þingmenn Miðflokksins erum að gera í þessari umræðu sé að reyna að leiða fram lýðræðislegan vilja? Við erum að reyna að ná fram hinni lýðræðislegu niðurstöðu í þessu máli og leyfa hinum lýðræðislega vilja að njóta sín.

Og talandi um stuðningsmenn þessara stjórnmálaflokka þá vill svo vel til að í dag á Sjálfstæðisflokkurinn afmæli, að mér skilst. Hann er 90 ára gamall. Við óskum flokksmönnum Sjálfstæðisflokksins til hamingju með það. Það gefur flokksmönnum tækifæri til að hittast og vonandi hitta sem flesta þingmenn flokksins. Við hljótum að binda vonir við það.

Er ekki hv. þingmaður sammála mér um að þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins hitta kjósendur flokksins, hitta Sjálfstæðismenn, muni flokksmenn leiða þessum þingmönnum sínum það fyrir sjónir að þeim beri, til þess að verja m.a. sjálfstæðisstefnuna, að hafna þessum þriðja orkupakka? Er hv. þingmaður sammála mér um það? Bindur hann vonir við þennan hátíðisdag Sjálfstæðisflokksins?