149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:38]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Andsvar hv. þingmanns kallar á athugasemdir af tvenns konar tagi. Í fyrsta lagi er það bara mjög áleitin spurning hvaða lýðræðislegt umboð ríkisstjórnarflokkarnir hafi til þess að standa að samþykkt þessa orkupakka. Því að þeir öfluðu sér ekki neins slíks umboðs í síðustu kosningum með því að tala fyrir slíku máli og kynna það fyrir kjósendum að það væri þeirra stefna að innleiða ætti þennan orkupakka, með þeim afleiðingum sem við sjáum að hann hefur að dómi lögfræðilegra ráðunauta ríkisstjórnarinnar sjálfrar.

Ég tek undir heillaóskir hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til Sjálfstæðisflokksins og Sjálfstæðismanna á 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn var stofnaður hér á Alþingi af þingmönnum Íhaldsflokksins og einum þingmanni Frjálslynda flokksins. Ég leyfi mér að nefna á persónulegum nótum að málið er mér eilítið skylt vegna þess að í hópi þingmanna flokksins á þessum tíma var móðurafi minn, Jóhann Þ. Jósefsson, og ég hef alltaf verið afar stoltur af því að eiga afa sem átti þátt í að stofna Sjálfstæðisflokkinn, sem lengi vel var ákveðin kjölfesta og mjög mikilvægur fyrir stjórnmálalíf landsins og hefur látið mjög margt gott af sér leiða.

Varðandi afmælishaldið í dag vona ég svo sannarlega að þeir sem eru kjörnir fulltrúar af hálfu flokksins leggi vel við hlustir. Það er nú einu sinni þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur þurft að glíma við eins konar fráflæðisvanda í ákveðnu fylgislegu tilliti, ef komast má svo illa að orði. En ég ætla að flest fólk sem á annað borð aðhyllist þá grundvallarstefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið fast við lengst af frá stofnun, sé algerlega andvígt innleiðingu þriðja orkupakkans.