149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:40]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ekkert er fegurra en vorkvöld í Reykjavík. Ég hef átt þess kost nú í nokkra daga að vera staddur hér niðri í miðbæ Reykjavíkur að nóttu til og að morgni til eins og í morgun og horfa yfir Tjörnina á mjög fallegum vormorgnum, og ég fullyrði að morgnarnir í Reykjavík eru ekki síðri en vorkvöldin. Og á þessum fallega degi er vel við hæfi, af því að þetta er fyrsta ræða mín á kristilegum tíma á þessum degi, að óska Sjálfstæðisflokknum hjartanlega til hamingju með 90 ára afmælið. Vegni þeim sem best og megi þeir eiga árangursríkan og innihaldsríkan fund eða einhvers konar samkomu, sem mér skilst að þeir eigi síðar í dag.

Ég var í síðustu ræðu að fjalla um upprunaábyrgð á raforku sem er afskaplega áhugavert efni og tengist innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins á margan hátt, á athyglisverðan hátt, ekki síst með tilliti til verðlagningar og hugsanlegrar breytingar á verði raforku innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Ég fór yfir það hér fyrr í dag að ég hefði sent hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrirspurn í nóvember sl. sem var svarað núna fyrir réttum mánuði, sem inniheldur afskaplega áhugaverðar upplýsingar einmitt um upprunaábyrgðir. En upprunaábyrgð á raforku er, þetta er torskiljanlegt orð, ef við tölum okkar ylhýra mál, bara vottorð, skriflegt eða rafrænt, fyrir því að uppruni þeirrar raforku sem verið er að kaupa eða nota sé frá orkugjöfum sem eru endurnýjanlegir. Það er sem sagt hægt að framvísa vottorði á Evrópska efnahagssvæðinu og þar með sanna að orka sem verið er að nota í atvinnurekstri sé upprunnin frá endurnýjanlegum orkugjöfum, sem er í Evrópusambandinu talið afskaplega jákvætt, og getur valdið því að fyrirtæki sem framleiða vöru með slíkt vottorð upp á hendurnar á auðveldara með viðskipti og sölu á sinni framleiðsluafurð.

Það þarf ekki að þýða, herra forseti, að viðkomandi fyrirtæki sem kannski er rekið í Frakklandi eða á Ítalíu, fái orkuna raunverulega frá vatnsfallsorkuveri, heldur gæti kjarnorkuver verið við hliðina á verksmiðjunni og orkan leidd beint inn í verksmiðjuna. Þannig að í raunveruleikanum þarf ekki að vera að viðkomandi framleiðslufyrirtæki sé að nýta orku frá vatnsfallsorkuverum, heldur gæti það verið kolaorkuver eða kjarnorkuver. En með því vottorði sem þeir framvísa og — sem er snilldin í þessu — geta keypt frá raforkuverum sem framleiða orkuna á endurnýjanlegan hátt fyrir fjármuni lítur það þannig út, jafnvel þótt raunveruleikinn sé allt annar. Þetta hefur mikið verið í umræðunni. Ég hef mikinn áhuga á þessu máli og mun fjalla mikið meira um þetta.

Þetta hefur mikið verið í umræðunni vegna þess að það er búið að innleiða þetta hér á Íslandi og var gert hér fyrir mörgum árum, að íslensk raforkuver, eins og Landsvirkjun og fleiri sem reka virkjanir, eru komin inn á þennan markað og geta selt þessi vottorð um hreina orku og þeir selja þessi vottorð til Evrópu. Þeir selja þetta fyrir fjármuni.

Ein spurning mín í fyrirspurn til ráðherra fjallaði einmitt um þetta: Hversu mikið hefur verið selt af þessu héðan? Hversu miklir fjármunir hafa fengist fyrir þetta? Hvert er verðið per megavattstund og fleira slíkt? Þannig að þetta er mjög áhugavert. Ég hlakka mikið til að halda áfram að greina í smáatriðum frá svari hæstv. iðnaðar-, nýsköpunar- og atvinnuvegaráðherra hér í næstu ræðu.