149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:48]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir ágæta spurningu. Það er mér sönn ánægja að leitast við að svara henni. Ég hef verið að kynna mér svar hæstv. ráðherra sem er afskaplega greinargott að flestu leyti en þó ekki öllu. Ég hef hugsað mér að leita svara við þeim spurningum sem vakna við lestur svars hæstv. ráðherra, sem mér finnst skorta á.

Samkvæmt lögum um upprunaábyrgðir, sem eru nr. 30/2008, menn geta kynnt sér það — það eru 11 ár síðan þessi lög voru sett hér á landi og þar með lauk innleiðingu á þessum reglum Evrópusambandsins — er hver eining upprunaábyrgðar mæld í MWst., en 1.000 kWst. er ein MWst. Og 1.000 MWst. er ein GWst., en 1.000 GWst. er ein TWst. Þannig að hér er um gífurlega orku að ræða þegar verið er að tala um TWst. Á árinu 2017 voru seldar til erlendra aðila 14,8 TWst. Þær voru seldar úr landi, ábyrgðirnar, vottorðið. Fyrir það fékkst, áætlað í svari ráðherra árið 2018, að tekjur raforkufyrirtækjanna hér hafi verið á bilinu 800–850 millj. kr., þannig að hér er um verulegar fjárhæðir að ræða fyrir íslensk raforkufyrirtæki, sem er að mörgu leyti mjög gott. En ég spyr um áhrifin og afleiðingar af þessu kerfi hér innan lands.