149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:50]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta er gríðarlega áhugavert. Ef ég skil hv. þingmann rétt þá er þetta eitthvað sem gerist á hverju ári, að hægt er að selja þessar vottanir. Eða kaupir fyrirtæki kvóta einu sinni og heldur honum um alla framtíð eða hvernig virkar þetta kerfi? Og er það þá svoleiðis að það geti jafnvel verið hagfellt að byrja að framleiða orku, jafnvel þó að viðtakandinn sé ekki endilega til staðar eða nýtnin sé ekki samfelld, eins og t.d. vindorka, til þess að selja slík aflátsbréf? Eru fjárhæðirnar það miklar? Eða hvernig virkar þetta? Maður nær eiginlega ekki alveg utan um þetta, hvernig þetta er líklega hugsað. Ég myndi vilja beina þeirri fyrirspurn til hv. þingmanns. Er þetta hugsað sem hvati fyrir fyrirtæki til að nota frekar hreina orku en óhreina? En hver er raunveruleikinn á móti ef maður getur raunverulega bara keypt sér svona bréf þrátt fyrir að maður sé búinn að stinga í samband við kjarnorkuver eða olíubrunarafmagnsver? Það er mín hugleiðing í þessu. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti svarað þessu, eða hvort það felst í svari ráðuneytisins.