149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:54]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg það sem hv. þingmaður er að segja okkur: Hvernig getur fyrirtæki sem t.d. framleiðir orku með kolabruna fengið vottorð upp á að það framleiði orku á umhverfisvænan hátt? Ef við notum samlíkingu við landbúnað er þetta þá eins og ef kjúklingabú á Íslandi sem væri alltaf með allt í tipptoppstandi, tandurhreint og aldrei mælst salmonella, og svo væri annað kjúklingabú einhvers staðar úti í Evrópu sem hefði átt í vandræðum með salmonellu og slíkar sýkingar — gæti þá þetta evrópska kjúklingabú keypt réttinn af því íslenska til að geta sagst vera salmonellufrítt, en kjúklingarnir væru samt hugsanlega með salmonellu?

Ég skil ekki alveg þetta kerfi, herra forseti, og þætti vænt um ef hv. þingmaður myndi útskýra það betur fyrir mér og eins kannski svara spurningunni sem óneitanlega kviknar við að heyra lýsingu hv. þingmanns: Eru þetta þá ekki blekkingar? Er ekki verið að stunda blekkingar ef menn gefa vottorð um að orkan sé framleidd á einhvern allt annan hátt en hún er í raun og veru?

Ef hv. þingmaður er á því að þetta séu blekkingar, er hann þá þeirrar skoðunar að þetta séu lofsverðar blekkingar? Telur hann þetta jákvætt fyrirkomulag? Veldur það honum einhverjum áhyggjum að þetta gæti leitt til þess að menn haldi að við Íslendingar séum að framleiða orku með kolabruna, sem við höfum nú ekki gert býsna lengi?