149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:57]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir spurninguna. Jú, svarið við því hvort þetta séu lofsverðar blekkingar, hluti af þessu kerfi, hluti af því, ekki allt, er: Já, þær eru það. Fyrirtæki í Frakklandi framleiðir fatnað, segjum það, og notar til þess raforku sem kemur úr nærliggjandi kjarnorkuveri í raunveruleikanum. Viðskiptavinir þessa fataframleiðanda kvarta og segja: Þetta er ómögulegt, ég get ekki verið að kaupa sokkana frá þér, þú notar orku frá afskaplega sóðalegu orkuveri sem er þarna nálægt þér. Ég ætla frekar að versla við sokkaframleiðanda á Íslandi, þar er svo hrein orka notuð. Verksmiðjan, sokkaverksmiðjan í Frakklandi, fer á markaðinn, opna markaðinn, með upprunaábyrgðir, ekki með raforku heldur vottorðin — þar er Landsvirkjun að bjóða til sölu vottorð frá Íslandi, þessi hreinu og fínu vottorð, sem sanna að Landsvirkjun er að framleiða orku á umhverfisvænan og endurnýjanlegan hátt — og kaupir sér vottorð. Hún þarf hugsanlega að borga meira fyrir það ef eftirspurnin er mikil eftir þessum vottorðum og getur þá sýnt kaupanda sínum, sem er kannski staddur í Bandaríkjunum eða einhvers staðar annars staðar í heiminum: Ég er að framleiða þessa sokka á umhverfisvænan hátt og nota til þess raforku sem er endurnýjanleg og hérna er vottorðið upp á það. Jafnvel þótt raunveruleikinn sé allur annar.

Þetta leiðir til þess, herra forseti, að sokkaframleiðandinn á Íslandi hefur ekki aðgengi að þessu vottorði nema að kaupa það. Þetta er lofsverð blekking að þessu leytinu til.