149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:01]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Þetta er alveg hárrétt og rétt skilið hjá hv. þingmanni þegar málið er skoðað ofan í kjölinn. Það er torskilið að mörgu leyti vegna þess að þetta er í raun og veru blekking að því leyti til að þetta er ekki raunverulegt. Það er ekki raunverulegt þótt þú framvísir vottorði um að þú notir orku sem upprunnin er frá orkugjöfum sem eru endurnýjanlegir, þú getur bara framvísað þessu vottorði. Það er blekking að því leytinu til. En kerfið getur að mörgu leyti verið hannað á snilldarlegan hátt þrátt fyrir það.

Það leiðir hugann að því sem hv. þingmaður kom að, það leiðir hugann að því að þetta sé undirbúningur undir sameiginlegt raforkukerfi Evrópu. Svar mitt við þeirri spurningu er hiklaust: Já. Maður leiðir hugann að því, þegar maður kannar þetta kerfi sem útbúið er um þessi vottorð, að framtíðarsýn sé þarna á bak við sem sé sú sem hv. þingmaður lýsti alveg hiklaust. Það er verið að skapa verð á vöru, útbúa verð á vöru, á orku sem er framleidd á endurnýjanlegan hátt, vegna þess að það er jákvætt. Eftirspurn eftir þessari vöru, sem er þá vottorðin, mun þá aukast og verð á þessari orku mun hækka.