149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:12]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, til lengri tíma litið virðist það vera mjög raunveruleg hætta. Og áður en ég kem nánar að því er rétt að ítreka það sem hv. þingmaður kom aðeins inn á, að ef við hefðum ekki haft Landsvirkjun á því formi sem við höfum það fyrirtæki og ekki getað boðið orku á því samkeppnishæfa verði sem Landsvirkjun bauð, þá hefði ekkert verið um það að ræða að menn hefðu byggt þetta álver á Austurlandi og þá hefðu menn væntanlega horft fram á áframhaldandi samdráttarhnignun í samfélögum þar. En það tókst að ná þar gríðarlega mikilvægum viðsnúningi með þeirri framkvæmd.

En ef staðan verður hins vegar sú að farið verður að flytja orkuna út og selja hana á þessu staðlaða evrópuverði, miklu hærra verði en hér, og við getum ekki lengur státað okkur af því að vera að framleiða eða selja eingöngu umhverfisvæna orku, því að allt fer í sama pott, eins og kom fram hjá hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni áðan, þá er samkeppnisforskot Íslands hreinlega farið. En við sitjum uppi með það að flutningskostnaður bætist við ef framleiðslan fer fram hérna. Því skyldi þá álver ekki vera starfrækt í meiri nálægð við markaðinn þar sem kaupendur álsins eru með verksmiðjur? Með öðrum orðum, menn gætu allt eins til að mynda reist álver eða flutt til Þýskalands, þeir væru að kaupa sömu orkuna og þeir væru að kaupa á sama verði og ef þeir væru á Íslandi.