149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:23]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta er hið ólíklegasta mál, að menn leyfi sér raunverulega að kynna málið fyrir hinum almenna kjósanda á þennan hátt. Hæstv. utanríkisráðherra fylgdi málinu eftir í upphafi og í viðtölum í fjölmiðlum og ábyrgðarmenn málsins, flutningsmaður meirihlutaálits, forustumenn stjórnarflokkanna, fylgismenn málsins úr stjórnarandstöðu voru allir á einu máli um og á eitt sáttir um að þetta væri eiginlega algjört núllmál, að því undanskildu að þetta snerist um neytendavernd, þetta snerist um gagnsæi og þetta snerist um markaðsvæðingu.

Mér liggur við að segja að verið sé að blekkja fólk, eða alla vega að snúa upplýsingum þannig að fólki að það megi misskilja, ef við reynum að vanda orðræðuna. „Að það megi misskilja“ — ég held að það sé hóflega til orða tekið og vart til að verða víttur. Þegar við ræðum um markaðsvæðingu þá er það skilningur fólks að með markaðsvæðingu sé samkeppni sem er virk innan kerfisins sem getur raunverulega aldrei orðið á Íslandi í svo smáu þjóðfélagi, smáu kerfi. Hér verður alltaf fákeppni þrátt fyrir að einkaaðilar séu á markaði. (Forseti hringir.) En það er það sem stefnt er að hér, þ.e. að einkavæða auðlindir sem (Forseti hringir.) eru í eigu þjóðarinnar. Er það það sem hv. þingmaður er raunverulega að segja?