149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:26]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er alla vega það sem ég óttast. Og við höfum dæmin eins og það sem ég nefndi frá Frakklandi þar sem verkalýðshreyfingin sá ástæðu til að efna til mótmæla við orkuver. Hún var ekki að mótmæla orkuverinu eða starfsemi þess, hún var að mótmæla afskiptum Evrópusambandsins og því að þvinga ætti þennan orkuframleiðanda í almannaeigu, í ríkiseigu, til að fara í útboð á réttinum til að vinna þessa orku. Það hlýtur að vera til þess fallið að vekja okkur ugg um hvaða áhrif þetta hefði hér. Ef menn leggja til atlögu við Frakkland, Þýskaland og Bretland í þessu efni, því skyldu þeir þá ekki gera það á Íslandi? Evrópusambandið hefur stundum verið sakað um að hlífa stóru ríkjunum og ætlast til meira af þeim litlu, en í þessu líta þeir greinilega á þetta sem það stórt mál að stóru ríkjunum er ekki hlíft.

Hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson er kurteis maður og veigrar sér við að nota orðið blekkingar. En það má líta til þess að Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins — sem á afmæli í dag, þ.e. flokkurinn, ég held ekki Þorsteinn — leyfði sér að kalla þetta lofsverðar blekkingar. Hann kallar þær lofsverðar af því að hann er hlynntur málinu og telur að réttlætanlegt hafi verið að beita þingflokk Sjálfstæðismanna blekkingum til að fá hann til að styðja þetta, en þar er reyndar vísað til fyrirvaranna svokölluðu. Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvort ekki kunni blekkingar að vera að finna víðar í því hvernig þetta mál hefur verið kynnt fyrir almenningi og kynnt fyrir okkur í þinginu. En við höldum áfram að reyna að komast til botns í þessu því að sú vinna hefur skilað hreint ótrúlega miklum árangri nú þegar. Við höfum uppgötvað hverja staðreyndina eftir aðra.