149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:34]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var einkar athyglisvert, það sem hv. þingmaður flutti hér og færði fram. Við erum öll á því, vona ég, að við viljum halda stjórnarskrána í heiðri. Við viljum ekki brjóta hana, við viljum ekki fara í bága við hana. En með því máli sem hér er fram flutt eru mikil líkindi á því að farið verði í bága við stjórnarskrá Íslands. Við þurfum að vera viss um það, alþingismenn, að svo sé ekki. Við erum jú búin að vinna eið að stjórnarskránni, að halda hana í hvívetna. Það gerir enn meiri kröfur á okkar hendur að vanda til allrar lagasetningar hér á Alþingi, vanda vinnubrögð, sjá til þess að mál séu hér fram flutt og um þau fjallað á sæmilegan hátt.

Ég tók þess vegna mjög vel eftir því sem hv. þingmaður sagði um þetta. Mig langar til að biðja hann um að fara aðeins betur ofan í það hvort hann telji að ótvírætt sé að með því máli sem hér er fram flutt sé verið að fara í bága við stjórnarskrá Íslands. Og hvort hann telji að við þurfum hugsanlega að taka það mál sem hér liggur fyrir aðeins til hliðar, fara betur yfir það og fá úr því skorið með óyggjandi hætti að ekki sé verið að brjóta stjórnarskrá Íslands.