149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:37]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Stutta svarið við þeirri spurningu er: Já. Mér virðist einboðið að ríkisstjórninni eða fyrirsvarsmönnum þessarar tillögu væri sæmst að taka mark á þeim efnislegu rökum sem hér hafa komið fram og ekki hafa verið hrakin, ekki hafa verið hrakin í neinu.

Stjórnarliðar, hæstv. ráðherra eða fylgismenn tillögunnar hafa ekki gert neinn reka að því að koma upp í ræðustól Alþingis og rökstyðja það hvernig hinir lagalegu fyrirvarar, sem verið er að leita að og hafa ekki fundist, geti gert málið þannig úr garði að það geti talist þingtækt. Það er alveg ljóst í mínum huga að þetta mál getur ekki haldið vatni eins og ætlun hæstv. ráðherra er. Hér hefur því verið haldið fram að lagalegu fyrirvararnir séu þess eðlis að þeir haldi að þjóðarétti. En sýnt hefur verið fram á það með rökum úr ræðustól, með vísan til laga, reglugerða og álita okkar bestu fræðimanna, að svo er ekki. Fyrirvararnir halda ekki.