149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:39]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir það sem hv. þingmaður færði hér fram. Ég verð að segja aftur að þetta er í sjálfu sér mjög alvarlegt. Það er í sjálfu sér mjög alvarlegt að menn skuli færa fram mál af þessari stærðargráðu, sem varða þjóðina og munu varða þjóðina um alla framtíð, án þess að vera 100% öruggir á því að sá málatilbúnaður standist stjórnarskrá Íslands.

Því segi ég aftur, herra forseti: Ég held að það sé nauðsynlegt, og ekki bara nauðsynlegt heldur skylt, að málið verði tekið aðeins til hliðar, að menn gaumgæfi það enn betur, fari yfir málið frá byrjun og búi svo um hnútana að sómi sé að fyrir Alþingi sjálft.

Við höfum allt of mörg dæmi um það í gegnum tíðina að á málum sem Alþingi hefur afgreitt, hvort sem um er að ræða lagasetningu eða þingsályktunartillögur, hafa verið meinbugir sem ekki hefur verið hægt að laga. Það hefur kostað ríkið og þegnana mikið, bæði í peningum og í alls konar afleiddum ógöngum sem fylgt hafa því sem ratað hefur hér í gegn. Það er skylda okkar að sjá til þess með óyggjandi hætti að það sem hér gerist og það sem við afgreiðum í gegnum þjóðþingið fari ekki í bága við stjórnarskrá Íslands.