149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:41]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er mergurinn málsins. Það þarf að vera óyggjandi, en þetta mál er eins langt frá því og orðið getur. Hér er búið að sýna fram á það. Og eins og ég sagði áðan er enginn reki að því gerður að hrekja þau rök. Af hverju skyldi það nú vera? Jú, vegna þess að menn treysta sér hreinlega ekki til þess. Menn hafa engin rök til að hrekja það sem hér hefur verið sagt og lagt fram. Mér liggur næst að segja að menn óttist það að ef menn sleppa höndunum af þessu máli muni það hafa alvarlegar pólitískar afleiðingar. Það eru þau rök sem helst hafa stutt málstað þeirra sem talað hafa fyrir málinu, að pólitískar afleiðingar séu það sem menn óttast meira en nokkuð annað.

Menn óttast pólitískar afleiðingar svo mikið vegna þess að þeir fóru fram úr sér við að leggja fram þessa tillögu vanreifaða og illa undirbyggða. Og helstu rökin voru að hin pólitíska óvissa sem fælist í því að standa í lappirnar og standa með stjórnarskrá Íslands og rétti þjóðarinnar og hagsmunum væri slík að ekki væri mögulegt að taka áhættuna af því að fara hina lagalegu leið og þá réttu. Það eru sömu rökin og teflt var fram hér í Icesave-málinu.